Saga St. Jó
Þáttaskil urðu í hafnfirskum heilbrigðismálum, þegar sjúkrahús St. Jósefssystra tók til starfa í bænum árið 1926. Forsaga þess máls var sú að árið 1922 festi kaþólski söfnuðurinn kaup á Jófríðarstaðaeigninni í Hafnarfirði í því skyni að byggja þar sjúkrahús og barnaskóla.
Smíði spítalans hófst árið 1924 og teiknaði Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins húsið, sem seinna teiknaði Landspítalalann og fleiri þekktar byggingar eins og gamla spítalann á Ísafirði, en um smíð þess sá Ásgeir G. Stefánsson byggingarmeistari. St. Jósefssystur fóru fram á lán hjá bæjarstjórn til byggingar sjúkrahússins og varð bæjarstjórn við þeirri beiðni. Hafnarsjóður Hafnarfjarðar lánaði systrunum nokkurt fé í þessu skyni og kostaði húsið 265.000 kr.
St. Jósefsspítali var vígður við hátíðlega athöfn þann 5. september 1926, af prefekt Meulenberg, sem síðar varð biskup kaþólskra á Íslandi. Í nóvember sama ár var ráðinn til starfa Bjarni Snæbjörnsson læknir, sem var síðan aðalskurðlæknir og yfirlæknir spítalans í um 30 ár. Það var mjög vandað og fullnægði samtímakröfum. Þar var starfrækt skurðlækninga- og lyflækningadeild og auk þess voru reknar þar röntgenmyndir og veitt ljósböð. Hins vegar var berkla-sjúklingum og þeim er þjáðust af næmum sjúkdómum ekki veitt viðtaka á St. Jósefsspítala.
Læknar sjúkrahússins voru í upphafi þeir Þórður Edílonsson og Bjarni Snæbjörnsson, sem var yfirlæknir spítalans 1933-1956 en aðrir læknar gátu einnig stundað sjúklinga sína þar, eftir því sem rúm leyfði. Fyrsta forstöðukona St. Jósefs-spítala var dönsk, Augustine að nafni. Fyrstu árin, sem spítalinn starfaði, veitti bærinn honum árlega 2.000 króna styrk til að greiða ljósakostnað. Þessi ljósastyrkur var síðast greiddur árið 1937.
Þá tók sonur hans, Jónas Bjarnason við yfirlæknisstöðunni og gegndi hann henni fram til ársins 1992, er hann hætti störfum við spítalann vegna aldurs. Jósef Ólafsson læknir sem starfaði á St. Jósefsspitala frá árinu 1950 tók við sem yfirlæknir til ársins 1996 en starfaði áfram við spítalann fram til ársins 2000, þegar hann hætti fyrir aldurs sakir. Ásgeir Theódórs tók við af Jósef g gegndi starfi yfirlæknis þar til spítalanum var lokað.
Tilgangur St. Jósefssystra með byggingu spítalans var að þjóna þeim sem bjuggu í Hafnarfirði og nágrenni, allt til Suðurnesja. Þörfin var mikil og árið 1953 var byggt við húsið til norðurs. Þá kom fyrsta lyftan í húsið. Aftur var hafist handa á árinu 1974, og reist viðbygging til suðurs, þá bættist meðal annars við fullkomin skurðstofudeild.
Kaflaskipti urðu í sögu spítalans árið 1987, þegar St. Jósefssystur seldu St. Jósefsspítala og hættu öllum afskiptum af daglegum rekstri spítalans.
Kaupendur voru Hafnarfjarðarbær og ríkissjóður. Við eigendaskiptin breyttist rekstrarform spítalans, frá því að vera sjálfseignarstofnun í það að vera rekið sem sveitarfélagssjúkrahús, samkvæmt skilgreiningu laga. Eignarhlutur Hafnarfjarðarbæjar var þá 15%.
Árið 2000 var byggt nýtt anddyri við spítalann.
Fyrsta janúar 2006 varð enn mikilvæg breyting á starfsemi spítalans, því þann dag voru St. Jósefsspítali og hjúkrunarheimilið Sólvangur sameinuð í eina stofnun, St. Jósefsspítali, Sólvangur. Árni Sverrisson var skipaður framkvæmdastjóri sameinaðrar stofnunar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fól honum að samhæfa rekstur beggja stofnana í eina. Um leið var mótuð framtíðarsýn um sjúkrahús og öldrunarmál í Hafnarfirði.
Árið 2011 var St. Jósefsspítala lokað fyrir fullt og allt eftir 85 ára starfsemi. Húsið stóð autt og í niðurníslu þangað til árið 2017 þegar Hafnarfjarðarkaupstaður eignaðist allt húsið með kaupsamningi við ríkissjóð. Í kaupsamningnum skuldbatt Hafnarfjarðarkaupstaður sig til að reka almannaþjónustu í fasteigninni.
Síðar sama ár var settur saman starfshópur til að móta framtíðarstefnu hússins og koma með hugmyndir að starfsemi í húsið.
Í október 2017 og febrúar 2018 gaf starfshópurinn út tvær skýrslur þar sem lagt er til að St. Jó verði lífsgæðasetur með fókus á Heilsu, Samfélag og Sköpun. Markmið lífsgðasetursins er að efla lífsgæði íbúa Hafnarfjarðar.
Vorið 2018 var ráðinn inn verkefnastjóri til að koma Lífsgæðasetrinu í starfsemi og hófust framkvæmdir við St. Jó þar sem meðal annars anddyrið frá árinu 2000 var rifið niður. Húsið verður fært sem næst sinni upprunalegu mynd með frönskum gluggum og fallegum viðarhurðum.
Lífsgæðasetur St. Jó opnaði formlega fimmtudaginn 5. september á 93 ára vígsluafmæli spítalans. Hátt í 1300 manns sóttu opið hús á opnunardaginn og komu inn 15 þjónustuaðilar í fyrsta áfanga hússins. Björn Pétursson, bæjarminjavörður flutti ávarp þar sem stiklað var á sögu St. Jósefsspítala og má lesa ávarpið í heild sinni hér.
Heimildir: Jósefsspítali og Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 eftir Ásgeir Guðmundsson.