Yin jóga og jóga nidra
Í Yin joga er farið rólega inn í stöðu sem er ávallt gerð liggjandi eða sitjandi og getur því hentað…
Með opnun Takts vorið 2022 í Lífsgæðasetri St. Jó rættist langþráður draumur Parkinsonsamtakanna um aðgengilega, heildræna og faglega endurhæfingarmeðferð við Parkinson og skyldum sjúkdómum ásamt stuðningi við aðstandendur. Fagleg og fjölbreytt endurhæfing er mikilvægur þáttur í meðferð við Parkinson, en með réttum inngripum og þjálfun á réttum tíma má hægja á framgangi sjúkdómsins, draga úr einkennum og efla vellíðan og sjálfstæði fólks sem við hann glímir. Þau víðtæku og langvarandi áhrif sem sjúkdómurinn hefur á færni, líðan og lífsgæði fólks kalla á heildræna nálgun í endurhæfingu, þar sem einstaklingsbundið mat er lagt á þjónustuþörf á hverjum tíma. Framboð þjónustu í Takti tekur mið af þessu og áhersla lögð á fagmennsku, fjölbreytni, persónubundna nálgun og sveigjanleika. Í Takt geta þau leitað sem búa sjálfstætt en hafa þörf fyrir þjónustuna og miðar dagleg dagskrá við að hver og einn geti valið þá þjálfun, fræðslu og ráðgjöf sem er viðeigandi á hverjum tíma.
Dagleg dagskrá samanstendur af hópþjálfun af ýmsu tagi sem hver og velur eftir þörfum og getur skráð sig í frá viku til viku. Sem dæmi má nefna er boðið upp á iðjuþjálfun, raddþjálfun og söng, jóga, slökun, myndlist (málun), borðtennis og stuðningshópa af ýmsu tagi. Auk þess eru haldin regluleg námskeið og fræðsla sem miðar við ýmsa hópa og viðfangsefni sem styrkja og efla hæfni og bjargráð þeirra sem eru með sjúkdóminn og aðstandenda þeirra. Endurhæfingarráðgjöf hjúkrunarfræðings er þar einnig í boði og aðgengi að einstaklingsþjónustu fagfólks úr ýmsum greinum sem félagsmenn geta nýtt sér.
Taktur rekur einnig sérhæfða sjúkraþjálfun fyrir fólk með Parkinson og skylda sjúkdóma á 1. Hæð Lífsgæðasetursins. Þar starfa sérhæfðir sjúkraþjálfarar og Taktur leggur metnað sinn í að þar séu öll tæki og aðbúnaður eins og best verður á kosið.
Hægt er að nálgast meiri upplýsingar, skráningar ofl á heimasíðu samtakanna.